Eiga kvótaeigendur að hafa sjálfdæmi um framtíð Íslands? Grein eftir J.B.H.

Eiga kvótaeigendur að hafa sjálfdæmi um framtíð Íslands?
Jón Baldvin Hannibalsson skrifar þessa grein.

--- --- ---

Ísland og sjávarútvegsstefna ESB:

EIGA KVÓTAEIGENDUR AÐ HAFA SJÁLFDÆMI UM FRAMTÍÐ ÍSLANDS?

Það var vel mætt í auditorium í Tæknigarði í hádeginu, 30. apríl. Umræðuefnið var: Sjávarútvegsstsefna ESB – hvað með fiskinn í sjónum? Munu vondir útlendingar taka hann frá okkur, ef við göngum í Evrópusambandið?

Fundurinn var haldinn á vegum Alþjóðamálastofnunar háskólans og Rannsóknarseturs um smáríki. Ólafur Harðarson, prófessor, stýrði fundi, en framsögumenn voru Friðrik Arngrímsson frá LÍÚ, og Bjarni Þór Harðarson, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Loks áttu fulltrúar flokkanna að tala máli sinna flokka, þar sem þeir sátu fyrir svörum.

Hvað kom út úr þessum fundi? Stóra spurningin sem var ósvarað var þessi: Eiga sérhagsmunaklíkur að hafa sjálfdæmi um það, hvort Íslendingar kjósi að ganga í Evrópusambandið eða ekki? Er það víst, að almannahagsmunir fari saman við þröngt hagsmunamat atvinnurekenda (eða öllu heldur lítils hluta þeirra í þessu máli)? Þeir sem hafa heyrt framkvæmdastjóra LÍÚ fara með ræðuna sína gegn Evrópusambandsaðild kunna hana orðið utanbókar. Rullan er svona:

Íslendingar munu glata yfirráðum yfir auðlindinni; Brüssel mun ráða fiskveiðistefnunni og úthluta kvóta; Íslendingar, fáir og smáir, munu engu ráða í eigin málum. Það er engin trygging fyrir því, að Íslendingar verði ekki beittir meirihlutavaldi, sem geti þýtt að útgerðin færist í hendur útlendinga; og arðurinn með þeim úr landi. Það er alveg sama, hversu oft þessi hræðsluáróður íslenskra kvótaeigenda hefur verið leiðréttur – það er eins og að skvetta vatni á gæs. Hræðsluáróðurinn er endurtekinn í síbylju, sérstaklega á landsbyggðinni. Fólk er farið að trúa fleiprinu. Þar með er vitiborin umræða kæfð í fæðingunni.

Hverjum í hag?

Rómverjar hinir fornu spurðu gjarnan: Qui bono? Hverjum í hag? – þegar þeir lögðu mat á málflutning manna í senatinu. Sambærilegt húsráð hjá Ameríkönum er: Follow the money. Það er vert að hafa þetta í huga, þegar áróður útgerðarmanna er gegnumlýstur. Lítum á eftirfarandi:

Skv. lögum er fiskveiðiauðlindin sameign þjóðarinnar. Til að taka af tvímæli um það tókst 80-daga stjórninni að binda þetta ákvæði í stjórnarskrá. Íslensk stjórnvöld hafa því ekki heimild til að semja frá sér eignarréttinn á auðlindum þjóðarinnar, þar með talið fiskimiðunum. Þetta breytir ekki því, að ríkið úthlutar veiðiheimildum til útgerðarmanna, án endurgjalds. Fámennur hópur útgerðarmanna fékk á sínum tíma þau forréttindi að fá einkarétt á nýtingu auðlindarinnar, fyrir ekkert. Þessu til viðbótar fengu útgerðarmenn rétt til að selja eða leigja veiðiheimildirnar, sem þeir eiga ekki, - án þess að eigandinn fái nokkuð í sinn hlut.

Þessi úthlutun gjafakvóta, í skjóli pólitísks valds, er siðlaus stjórnsýsla. Þessar aðfarir eru skýrt brot á grundvallarreglum stjórnskipunar Íslands, sem kveða á um jafnræði fyrir lögum og atvinnufrelsi. Vera má, að réttlæta megi þetta stjórnkerfi til skamms tíma, í nafni neyðarréttar, nefnilega til þess að forða útrýmingu fiskistofna. Nú hefur reynslan hins vegar leitt í ljós, að hið yfirlýsta markmið um uppbyggingu fiskistofna, með því að takmarka sóknina, hefur mistekist. Hugsanlegar forsendur neyðarréttar gilda því ekki lengur. Tímabundinn neyðarréttur getur ekki til frambúðar vikið frá grundvallarreglum stjórnskipunar ríkisins. Það er valdníðsla.

Hvernig hafa íslenskir útgerðarmenn farið með þau forréttindi, sem þeim voru gefin af flokkum sínum, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum? Yfirlýst markmið kvótakerfisins var hagræðing. Kvótakerfi með framsali átti að þýða færri skip til að sækja úthlutaðan afla. M.ö.o.. það átti að lækka tilkostnað og auka hagnað. Yfirlýstur tilgangur var m.ö.o. tvíþættur: Verndun fiskistofna og aukin arðsemi.

Hver er árangurinn?

Hver er árangurinn? Veiðiheimildirnar hafa að sönnu sífellt færst á færri hendur. Tiltölulega fá og stór útgerðarfyrirtæki ráða nú yfir kvótanum. Þessi fyrirtæki hafa veðsett óveiddan fisk í sjó hjá bankakerfinu, (þ.e. þrotabúum gömlu bankanna) fyrir lánum til að kaupa aðra út úr greininni. Þannig hefur orðið mikið fjárstreymi út úr greininni. Fyrir því má færa rök að þarna sé að finna uppruna pappírsauðsins, sem síðan var nýttur í fjárhættuspilinu í útlöndum og að lokum kom Íslandi á hausinn. Hversu mikið af veiðiheimildum á Íslandsmiðum er þar með komið í hendur erlendra banka? Eru þetta ekki sömu mennirnir, sem vara þjóðina við því að vondir menn í útlöndum muni stela kvótanum, ef við göngum í ESB?

Sum þessara útgerðarfélaga hafa nú þegar meiri hluta tekna sinna af umsvifum í útlöndum. Það eru þessir sömu kvótaeigendur sem reka LÍÚ og kosta áróðurinn um að veiðiheimildirnar og hagnaðurinn muni færast í hendur útlendinga, ef Ísland gengur í ESB. Það eru þessi sömu kvótaeigendur, sem með kvótabraski sínu hafa sökkt sjávarútvegsfyrirtækjunum upp fyrir haus í skuldir. Skuldir þeirra nema nú allt að aflaverðmæti þriggja ára.

Hrun krónunnar – sem þessi menn þykjast vilja standa vörð um – hefur hækkað skuldirnar upp úr öllu valdi. Sjávarútvegurinn undir þeirra stjórn er sokkinn í skuldir. Þótt gengishrun krónunnar bæti samkeppnisstöðuna á erlendum mörkuðum, hækkar það skuldirnar um leið. Eina leiðin, úr því sem komið er, til þess að aflétta erlendum skuldum af sjávarútvegsfyrirtækjunum er sennilega sú að ganga í Evrópusambandið. Þar með yrði sjávarútveginum, eins og öðrum atvinnuvegum, leyft að afla hlutafjár gegnum erlenda fjárfestingu. Sjávarútvegurinn sæti þá við sama borð og aðrar atvinnugreinar. Þrátt fyrir erlenda hlutafjáreign hafa íslensk stjórnvöld ótal ráð sem duga til að tryggja, að arðurinn af útgerð og vinnslu héldist í landinu.

Það er kominn tími til, að almenningur á Íslandi fari að sjá í gegnum hræðsluáróður kvótaeigendanna í LÍÚ. Það er augljóst mál, að kvótahafarnir óttast það helst að missa forréttindi sín, ef gengið verður í ESB. Það er að vísu á misskilningi byggt, að ESB aðild breyti nokkru um fiskveiðistjórnun á Íslandi og framkvæmd hennar. Embættismenn í Brüssel hafa ekkert með það að gera. Við þurfum sjálf, í nafni almannahagsmuna, að afnema þessi forréttindi, einfaldlega af því að þau eru hvort tveggja, löglaus og siðlaus.Nú reynir á vinstri-stjórnina, hvort hún rís undir nafni: Ætlar hún að standa við stóru orðin og skila þjóðinni aftur arði af eign sinni – sjávarauðlindinni?

Almannahagur gegn sérhagsmunum

Svo þurfum við að átta okkur á því, að hagsmunir sjómanna og fiskverkafólks í landi fara ekki saman við hagsmuni kvótahafanna. Fjöldinn allur af þeim, sem áður voru sjálfstæðir atvinnurekendur í íslenskum sjávaraútvegi, eru nú orðnir að leiguliðum forréttindaaðalsins. Það þarf að leysa þá úr fjötrum og fá þeim aftur stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi. Lénsveldið leið undir lok í Evrópu með frönsku byltingunni. Þurfum við nýja byltingu til þess að afnema það í íslenskum sjávarútvegi?

Innganga í ESB mundi þýða, að aftur yrði hagkvæmt að fullvinna sjávarafurðir á Íslandi. Ástæðan er sú, að fullunnar afurðir yrðu tollfrjálsar (sem þær ekki eru nú). Þetta mundi skapa atvinnu, sem ekki veitir af eftir hrun. Þetta eru augljós dæmi um það að hagsmunir sjómanna og fiskverkafólks fara ekki saman með hagsmunum kvótahafanna.

Þegar þetta bætist við þá staðreynd, að hræðsluáróður LÍÚ er mestan part staðleysustafir frá upphafi til enda, standa vonir til, að almenningur í landinu muni láta almannahag ráða afstöðu sinni í þessu máli, fremur en að láta blekkjast af hræðsluáróðri forréttindaliðsins. Hverjir eru þá hagsmunir almennings í þessu máli? Hrunið hefur kennt okkur það the hard way: Stöðugt gengi, traustur gjaldmiðill, lágir vextir, afnám verðtryggingar og lægra verð á lífsnauðsynjum. Aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst um lífskjör almennings í framtíðinni.

(Höf. Var formaður Alþýðuflokksins, sem beitti sér fyrir 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna um þjóðareign á sjávarauðlindinni)

------


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband