"ICH BIN EIN BERLINER"

Þegar forseti Bandaríkjanna, John F. Kennedy, kom í opinbera heimsókn til Vestur Berlínar í júní 1963 sagði hann í ræðu sem er talin ein af hans bestu hina frægu setningu, „Ég er Berlínarbúi“. Hann sagði:

„Allir frjálsir menn, hvar sem þeir búa, eru borgarar Berlínar, og þess vegna gerir það mig stoltan sem frjálsan mann að segja, ég er Berlínarbúi.“

Hvernig gat hann álitið sig vera borgara Berlínar ef hann var Bandaríkjamaður? Nú, það er einmitt málið. Hann var að undirstrika pólitískan stuðning sinn við Berlínarbúa skömmu eftir að kommúnistaríkið Austur Þýskaland reisti Berlínarmúrinn. Múrinn var reistur sem víggirðing til þess að hindra fólk í að fara milli Austurs og Vesturs. Kennedy gaf með fleygum orðum sínum til kynna að múrinn sem hefði rænt þá Berlínarbúa sem bjuggu í Austurhlutanum frelsi til þess að yfirgefa landið og heimsækja fjölskyldu og vini í Vesturhlutanum væri vanvirða fyrir alla frjálsa menn. Hann bætti við að þegar brotið er á mannréttindum, skert frelsi og lýðræði og þegar ferðafrelsi er takmarkað … þá erum við öll fórnarlömb, við verðum öll fyrir barðinu á því. Við erum öll “Berlínarbúar.”

Samkvæmt 13. grein Mannréttindayfirlýsingarinnar má ekki banna borgurum að yfirgefa land sitt. En það er ekki sambærilegt ákvæði um komu þeirra sem eru ekki borgarar. Það sama má segja um Mannréttindasáttmála Evrópu. Frelsi til þess að fara frá landi er ekki tengt því að vera hleypt inn í annað land. Við erum öll “Berlínarbúar” þegar við yfirgefum heimalönd okkar vegna þess að ekkert land er skylt til að taka við okkur.

Það er því ekki að undra að innflytjendamál séu orðin stórmál alls staðar í heiminum. Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið eru líkast til einu svæðin í heiminum sem leyfa frjálst flæði fólks milli meðlimaríkjanna (samkvæmt vissum reglum.)

Vegna EES-samningsins er Íslandi skylt að samþykkja frjálsar ferðir fólks sem eru borgarar EES (25 ríki ESB plús 3 ríki, því að Rúmenía og Búlgaría eru nú innan ESB en ekki í EES). Að sjálfsögðu er Íslendingum frjálst að ferðast og setjast að í öðrum EES löndum. Bann við mismunun og sama meðferð allra gilda innan þessa svæðis.

Hvað varðar borgara annarra ríkja, sem tilheyra hvorki ESB eða EES, þá getur Ísland sett sér eigin stefnu um innflytjendur og rétt þeirra. Það getur leyft fólki að flytja til landsins af ástæðum sem hafa með hagkerfi Íslands að gera, eins og þörf á vinnuafli.

Það segir sig sjálft að aðstreymi erlendra borgara getur skapað spennu á vinnumarkaði og í samfélaginu og brýnt er að takast fljótt og vel á við þau vandamál sem geta komið upp.

Skýrri stefnu í innflytjendamálum verður að fylgja skýr stefna um gagnkvæma aðlögun. Efnahagslegum réttindum verða að fylgja félagsleg réttindi eigi innflytjendur að geta fótað sig í nýju landi. Það er sorgleg staðreynd að andspænis hinum nýja og flókna veruleika aukinna fólksflutninga milli landa hefur Evrópuríkjum ekki tekist að marka sér skýra stefnu hvað varðar innflytjendur og gagnkvæma aðlögun. Á meðan ESB hefur æ ofan í æ viðurkennt þörfina fyrir innflytjendur í Evrópu hefur verið lítil samstaða um hvernig best sé að standa að þessum málum svo vel sé bæði innan þjóðríkjanna og innan ESB.

Það er ljóst að Evrópa er að komast að vendipunkti í því að bregðast við málefnum innflytjenda og gagnkvæmrar aðlögunar. Á sama tíma og innflytjendastraumar verða æ flóknara fyrirbæri virðist æ erfiðara að gefa einföld svör við spurningum um hvernig best sé að samlaga þessa hópa þeim sem fyrir eru í Evrópu.

Því miður er ekki lengur hægt að líta fram hjá þeim verkefnum sem blasa við í samfélögum okkar. Lífið heldur áfram óháð því hvort til er skýr stefna um innflytjendamál eða ekki. Þrátt fyrir að þetta sé flókinn málaflokkur, eins og sagt er, þá er enn brýn þörf að hafa skýra stefnu um gagnkvæma aðlögun.
 
Gagnkvæm aðlögun sem slík er á hendi stjórnvalda í viðkomandi landi eða svæði, og hlutverk ESB er að setja viðmið. Megin rökin fyrir aðlögun innflytjenda eru þau að allir hafi sömu mannréttindi og sama frelsi óháð þjóðerni, uppruna eða kynþætti, eins og kveðið er á í Evrópusáttmálanum. Jafn réttur allra borgara samfélags endurspeglast í stefnuskrám sem boða jöfn tækifæri og berjast gegn mismunun.

Mikilvægasta varðan á leið ESB var samþykkt 11 sameinginlegra „lögmála“ 11 Common Basic Principles (CBPs) frá nóvember 2004 til að “bjóða upp á heildstæða rammaáætlun um gagnkvæma aðlögun fólks frá öðrum löndum en EES.“ Þessi lögmál kveða á um forgang viðmiða sem öll stefnumótun um gagnkvæma aðlögun á að hafa að leiðarljósi, en þar á meðal eru hin mikilvægustu aðgangur að atvinnu, grundvallar þekking á hinu opinbera tungumáli, og þátttaka í lýðræðisferlum. Þessi lögmál eru einnig grunnur að samevrópskri áætlun um gagnkvæma aðlögun.

Þar sem gagnkvæm aðlögun er ekki hluti EES-samningsins er ljóst að Ísland er ekki bundið af hinum “mjúku” evrópsku reglum. Ísland á engu að síður aðild að Evrópska mannréttindasáttmálanum og ætti að fylgja öðrum Evrópuþjóðum að málum. Þriðja skýrslan sem Evrópuráðið gaf út um Ísland árið 2006 (European Commission Against Racism and Intolerance) hvetur íslensk stjórnvöld í viðleitni sinni til að taka mið af reynslu annarrra Evrópuþjóða og ráðleggur að tryggja sem best rekstur hins nýja innflytjendaráðs með öllum tiltækum ráðum.

Það er nefnilega staðreynd að stefna um gagnkvæma aðlögun er meira aðkallandi en nokkru sinni fyrr. Okkur ber skylda til að tryggja að allir nýbúar, frá Evrópu eða annars staðar frá, geti spjarað sig í nýju landi. Þetta er afar brýnt vegna þess hversu eldfim þessi mál geta verið. Umræðan þarf að vera opinská og opinber. Úrræðin verða að standa til boða. Það er ekki einasta ábyrgðarlaust að huga ekki að stórum hópi erlendra samborgara eða láta sem vandamál séu ekki til staðar. Það mun einnig skapa spennu og ala á kynþáttahatri og útlendingafælni í samfélagi okkar. Það fæðist enginn maður “innflytjandi”. Maður verður að “Berlínarbúa” þegar maður flytur milli landa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband