"GRÆN-VÖXTUR". HAGFRÆÐI SÍÐ-EFNISHYGGJUSAMFÉLAGSINS

Það er næstum þversögn að síðasta bók J.K. Gailbraith, eins frægasta hagfræðings Bandaríkjanna á 20. öld, sem var þekktur fyrir framsæknar skoðanir sínar, hefur að geyma harða gagnrýni á kapítalíska hagkerfið. Það er ekki síður athyglisvert að Gailbraith taldi „Hagfræði saklauss skrums” (The Economics of Innocent Fraud) frá árinu 2004 vera sína bestu bók. Hvernig stendur á því að maður eins og Gailbraith varð á tíræðisaldri einn snjallasti og róttækasti talsmaður “andkapítalísku” kynslóðarinnar?

Í síðustu bók sinni skýrði hann gagnrýni sína á hagvöxt (Gross Domestic Product) og andmælti því að gera hann að mælikvarða á þróun og framfarir. Hann hélt því staðfastlega fram að við værum á villigötum ef við legðum mat á samfélagslegar framfarir út frá hagvaxtartölum.

Gailbraith gagnrýndi það viðhorf að stöðugt vaxandi efnisleg framleiðsla gæða og þjónustu væri megin mælikvarði á  heilbrigt hagkerfi og samfélag. Þetta voru síður en svo nýjar fréttir. Hann hafði haldið þessu sama fram í “Velmegunarsamfélaginu”(The Affluent Society) árið 1958, sem var fyrsta mikilvæga dæmið um hagfræðilegar efasemdir um gildi hagþróunar. Nei, Gailbraith var ekki búinn að tapa vitinu. Hann var enn mjög skýr í hugsun. Það er vegna þessara kenninga sem Gailbraith er stundum álitinn vera einn af fyrstu “síð-efnishyggjusinnunum” og hann var sá fyrsti til að skrifa hagfræðilega um nauðsyn þess að gefa öðrum gildum forgang, eins og menntun, heilbrigði, lýðræði eða umhverfisvernd.

Kenningin um síð-efnishyggju kveður á um að þegar einstaklingar eða samfélög eru orðin velmegandi eða “rík” þá sé einber framleiðsla gæða og þjónustu (efnishyggja) ekki lengur fullnægjandi vegna þess að þau byrja að meta mikils önnur mannleg gildi eins og einstaklingsþroska, persónulegt frelsi, þátttöku borgara í ákvörðunum stjórnvalda og viðleitni til þess að halda umhverfinu hreinu og heilsusamlegu (síð-efnishyggja). Þess vegna taldi Gailbraith það vera rökrétt niðurstaða að ríkar þjóðir þyrftu á nýrri hagfræðikenningu að halda.

Ný kenning um hagþróun sem boðar að tryggja vöxt og vernda umhverfið – hvernig á hún að geta gengið upp? Í það minnsta er það ekki létt verk vegna þess að hingað til hafa hagvaxtarkenningar og umhverfisvernd verið andstæður. Málflutningur umhverfissinna var fremur neikvæður og byggði á þeirri sannfæringu að einungis væri unnt að gera bætur á umhverfi með því að minnka hagvöxt. Ekki væri hægt að bæði eiga kökuna og borða hana og þess vegna gætu samfélög ekki verndað umhverfi og tryggt hagvöxt á sama tíma. En er það endilega rétt?

Lítum á þessar forsendur út frá nýju sjónarhorni. Í fyrsta lagi er hagþróun ekki nauðsynlega neikvæð. Það er ekki hægt að hafna hagvexti sem slíkum. Hann gerir fólki kleift að lifa auðugra og heilbrigðara lífi og hann styrkir menningu og vísindaþróun með víðtækum hætti. Í öðru lagi sýna rannsóknir að þegar þjóðir efnast þá batnar umhverfi þeirra. Hagvöxtur er ekki fullkominn, en vöxtur skapar það ríkidæmi sem þarf til að kosta hreinna umhverfi. Það er staðreynd að ríkar þjóðir búa við hreinna umhverfi vegna þess að þær hafa einfaldlega efni á því.

Þetta eru einmitt stoðir hinnar nýju kenningar sem kallast „jákvæð umhverfishyggja“, en hún er fær um að sætta umhverfisvernd og hagþróun. Samkvænt kenningunni þarf að nýta tækni og leita framsækinna leiða til að vernda umhverfið. Jákvæð umhverfishyggja er ný hreyfing sem lætur ekki segja sér að umhverfisvernd hafi í för með sér lægri lifistandard eða minni lífsgæði. Þvert á móti, og það er einmitt þetta sem sumir kalla „græn-vöxt“, sem er sjálfbær þróun umhverfis í þágu almannahagsmuna.

Já, Gailbraith hafði rétt fyrir sér. Það er þörf á nýrri hagfræðikenningu fyrir velmegunarsamfélög síð-efnishyggjunnar þar sem fólk hefur í hávegum óhagfræðileg gildi eins og umhverfisvernd. Gailbraith lést árið 2006. Hann benti í þá átt sem við þurfum að fara, en lét okkur um að finna út úr hvernig við gætum best fetað þá leið. Hans síðustu skilaboð til okkar voru þessi: Reisa þarf nýtt samfélag síð-efnishyggju og það krefst þess að meta hagvöxt út frá sjónarhorni samfélags, tækni og umhverfis. Hagvöxtur einn og sér getur aldrei verið mælikvarði á framfarir mannlegs samfélags. Það er gerlegt og nauðsynlegt að tvinna saman umhverfisvernd, hagþróun og mannleg gildi.

Kenningin um græn-vöxt er aðeins byrjunin á þessari óhjákvæmilegu þróun. Við verðum að þróa uppskriftir fyrir hin ríku samfélög. Við verðum að endurskilgreina merkingu “vaxtar”, “framfara” og “siðmenningar.” Þetta er risavaxið verkefni sem krefur okkur um að breyta hugsun og lifnaðarháttum okkar. En göngum hugrökk á vit 21. aldarinnar. Minnumst gríðarlegra möguleika í krafti nýsköpunar og tækni sem geta bætt hag fólks á jörðinni og ástand hennar. Það eru ótakmarkaðir, spennandi möguleikar sem virðast draumkenndir í dag en geta verið orðnir raunveruleiki áður en langt um líður. Heimur morgundagsins verður allur annar en heimurinn í dag. En annar heimur en sá sem við þekkjum er svo sannarlega möguleiki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 

Sérlega góður pistill hjá þér.  Hafðu þökk fyrir.

Sigurður J. (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 15:21

2 identicon

Kæra Elvira,

thetta eru frabaerir pistlar hja ther. Mer finnst greinin um endalok mugmennisins sem thu birtir i Morgunbladinu fyrir nokkru vera mikilvaegt innlegg i islenska umraedu. Hun m.a. hvetur folk til ad starfa politiskt, hvernig svo sem thad finnur thvi farveg, i felagasamtokum eda i stjornmalasamtokum. I heimildarmyndinni um Al Gore, An Inconvenient Truth, hvetur Gore folk til hins sama. Ef folk er ekki anaegt med thad sem stjornmalamenn eru ad gera tha a thad bara sjalft ad bjoda sig fram til things. Hannah Arendt, stjornmalaheimspekingur, var stodugt ad hamra a thessu. Hun taldi ad folk aetti ad stiga fram a hin opinbera vettvang og verda virkt thar. Hins vegar hefur morgum thott asnalegt ad tengja sig vid politik, enda flokkapolitik, oft med tilheyrandi flokkshollustu og hrossakaupum, ekki fysileg i margra augum. Hugsanlega er thetta ad breytast eitthvad.  Bestu kvedjur fra Kaupmannahøfn. Sigridur

Sigridur Thorgeirsdottir (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband