ENDALOK MÚGMENNISINS. Hljóðlát, friðsamleg bylting breiðist út um Evrópu

Árið 1928 gaf Ortega y Gasset, ungur spánskur heimspekingur, út bók þar sem hann reyndi að sjá fyrir um framtíðarþróun 20. aldarinnar. Titill bókarinnar var Bylting múgsins (La rebelión de las masas) og náði hún á skömmum tíma mikilli útbreiðslu enda prentuð á mörgum tungumálum. Hann spáði þarna fyrir um það sem síðar hefur verið kallað „múgsamfélagið”. Það er samfélag þar sem fólk hefur sankað að sér veraldlegum eigum, en er jafnframt að mestu hætt að hugsa gagnrýnið og hefur misst áhugann á stjórnmálum. Manngerð þessa samfélags, múgmennið, er eins og fordekraður krakki sem telur sig eiga rétt á öllu. Múgmennið er þurftafrekt og síóánægt. Það neytir alls sem náttúran gefur af sér án þess að leiða hugann að því hvaðan það kemur. Múgmennið trúir hvorki á æðri skyldu né að því beri að fórna einhverju, það heimtar bara sitt og vill hafa það gott. Fámenn valdstjórn á auðvelt með að stýra múgmenninu að vild enda hefur það hvorki langtímaminni né á það sér framtíðarsýn fyrir samfélagið.

Því miður rættust spádómar Ortega y Gasset og 20. öldin varð öld múgmennisins og sigurgöngu múgsamfélagsins. Nú er hins vegar ný friðsamleg hreyfing að taka á sig mynd. Það fer svo hljótt um hana að við tökum varla eftir henni. Þessi hreyfing er lítt sýnileg, en staðreyndirnar tala sínu máli. Hugrakkt fólk sem tilheyrir 21. öldinni hefur ákveðið að það vilji ekki lengur vera múgmenni og það fer eins og eldur um sinu. Víða um heim, en einkum í Evrópu, hlýða karlar og konur kalli skyldunnar, endurheimta gagnrýnisraddir sínar og kalla á nýjan heim, á alþjóðleg lög um nýja heimsskipan, á niðurfellingu manngerðra víglína, á breytta hagþróun sem ver jörðina fyrir yfirvofandi hamförum, sem hefur löngu verið varað við. Þetta fólk hefur smátt og smátt orðið meðvitað um rétt sinn og er byrjað að nýta sér hann. Þetta er hljóðlát bylting hins venjulega fólks. Múgmennið er dautt og ný manngerð er komin fram á sjónarsviðið. 50 árum eftir stofnun Evrópusambandsins virðir þessi nýi venjulegi maður að vettugi þær reglur sem eru við lýði og rústar múrum milli þjóðríkja. Veraldarvefurinn og lýðræðishefðin eru loksins að gefa hinum venjulega manni þá rödd og þann vettvang sem hann þurfti á að halda.

Samruni Evrópu hefur gert þessa vitundarvakningu mögulega. Nýtt evrópskt hugarfar hefur orðið til eftir að þjóðríkin afsöluðu sér fullveldi sínu til stofnana Evrópu. Við teljum réttindi vera sjálfsögð sem voru ekki einu sinni til fyrir 50 árum, eins og ferðafrelsi, réttinn til að vinna og setjast að hvar sem við viljum í Evrópu, til þess að ganga í hjónaband með öðrum Evrópubúa, til þess að senda börn okkar í skóla til annarra Evrópulanda, til þess að vera sjúkratryggð þegar við ferðumst um álfuna, til þess að geta keypt eignir í útlöndum, til þess að geta stofnsett fyrirtæki og fjárfest að lyst víða um heim. Mestu varðar þó að við búum við evrópskt réttarkerfi sem sáttmálar Evrópusambandsins færðu borgurunum andstætt sáttmálum evrópska efnahagssvæðisins eða öðrum alþjóðasáttmálum, sem veita því miður venjulegum borgurum takmarkaðan aðgang, ef þá nokkurn. Alþjóðlegir dómstólar eru einungis opnir fyrir ríkjum og alþjóðastofnunum. Í 50 ár hafa borgarar Evrópu hins vegar getað farið með kærumál sín gegn eigin ríki eða stofnunum Evrópu til Evrópudómstólsins í Lúxemborg eða jafnvel til mannréttindadómstólsins í Strassborg.

Davíð gegn Golíat. Borgarar gegn ríkjum. Aðgengi borgaranna að yfirþjóðlegum dómstólum gæti hafa verið kveikjan að hinni hljóðlátu byltingu sem nú á sér stað í Evrópu. Þessi þróun hefur getið af sér hreyfingu sem hvorki verður stöðvuð né verður henni umsnúið vegna þess að hún hefur breytt því hvernig Evrópubúar skynja heiminn. Hún hefur getið af sér þennan nýja mann.

Á sama tíma og stjórn Bandaríkjanna reynir að eyðileggja þann árangur sem hefur náðst með alþjóðlegum lagasetningum og að grafa undan veikburða yfirráðum Sameinuðu þjóðanna með því að tendra ófriðarbál í nafni “fyrirbyggjandi stríða” er hinn nýi maður sannfærður um að öll lönd hafi rétt og beri siðferðileg skylda til að skipta sér af innanríkismálum annars ríkis ef þjóðarmorð á sér stað, ef þjóðin sveltur, ef kemur til hamfara á borð við flóðbylgjur eða jarðskjálfta og þegar umhverfisslys eru yfirvofandi. Hinn nýi maður umber hvorki spillingu, ranglæti né dánartilfelli sem eru afgreidd sem hliðarverkanir ástands (collateral damage).  

Þessi nýi maður fer út á götu og mótmælir friðsamlega. Hann trúir á nýja tegund grasrótarlýðræðis, hreyfingu sem kemur neðan frá og sem leitast við að komast til valda á eins friðsamlegan og skilvirkan hátt og unnt er vegna þess að hinar gömlu stofnanir takast ekki á við aðsteðjandi vandamál nýrrar aldar. Þessi maður trúir að vald geti breyst og að samfélagið geti endurnýjst. Hann tekur þátt í borgaralegu félagsstarfi, sinnir sjálfboðastarfi í frjálsum félagasamtökum og er kannski virkur í nýjum stjórnmálaflokkum.

Heimurinn er ein heild í augum þessa manns. Það er ekki hægt að sundra heiminum af fjölþjóðafyrirtækjum, alþjóðlegum glæpahringjum eða jafnvel ríkjum. Þessi maður skilur að þjóðríki ein og sér hafa ekki burði til að takast á við vandamál samtímans eins og hryðjuverkastarfsemi, mansal, styrjaldir, Aids eða fátækt. Þjóðir verða að taka höndum saman. Ef Evrópa hefur ekki bolmagn eða rétt til inngripa þá leitar þessi maður annarra alþjóðlegra lausna á vandanum sem við blasir. Dómari á Spáni, hinn frægi „juez Baltasar Garzón” leggur til nýjan lagalegan grunn að þessari umbyltingu alþjóðlegrar skipunar. Ég er viss um að Ortega y Gasset væri stoltur af honum vegna þess að hann er sönnun þess að hið úrelta múgmenni 20. aldar er liðið undir lok.  

Þessi nýi maður er hvergi jafn eftirtektarverður og í viðhorfum sínum til umhverfismála. Út um alla Evrópu er ný kynslóð fólks sannfærð um að „framfarir“ geti verið á kostnað samfélagslegra umbóta. Hagvöxtur getur verið á kostnað náttúru sem er of viðkvæm til að lifa af. Allt í einu virðist sem tapaðir málstaðir vakni á ný til lífsins sem sést hvað best á því að krafan um að samþykkja Kyoto bókunina hefur aldrei verið háværari en einmitt núna. Heimildarmynd Al Gore, „Óþægilegur sannleikur“ er bara toppurinn á ísjakanum.

Ísland er ekki undanskilið byltingu hins venjulega manns. Æ fleira fólk lætur í sér heyra um framtíð landa þeirra og samfélagsins. Bókin um Draumalandið varð metsölubók þvert á allar væntingar. Þetta sést líka á titringnum í kringum þá hreyfingu sem Framtíðarlandið stendur fyrir. 15000 manns fylgdu kalli einstaks og hugrakks manns og gengu í þögn niður Laugarveginn og syrgðu náttúru sem var þeim glötuð um aldur og æfi. Þessa hreyfingu vantaði sterka rödd og Ómar var maðurinn sem tendraði eldinn. Ný stjórnmálahreyfing hefur fæðst og tilgangur hennar er að virkja þá sem hugsa gagnrýnið, hafa eigin skoðanir og koma með djarfar lausnir. Í leit að nýja manninum.
 
Birtist  í Morgunblaðinu 23. Mars 2007 í miðopnu, s. 31.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband