Niðurstöður skýrslu minnar um Icesave

Að ósk Borgarahreyfingarinnar vann ég skýrslu um Icesave út frá lagalegum og pólitískum forsendum. Helstu niðurstöður skýrslunnar fara hér á eftir. Ég vil þakka Ólafi Ísberg Hannessyni doktorsnema í Evrópurétti fyrir að þýða niðurstöðurnar yfir á íslensku. 

 

Frá sjónarhóli Evrópuréttar er Icesave deilan og úrlausn hennar flókin. Valkostirnir eiga rætur að rekja til fjölbreyttra lagalegra, efnahagslegra og stjórnmálalegra þátta.

1. Mikil óvissa ríkir um hvort skaðabótaskyldu íslenska ríkisins megi leiða af því að ekki sé nægilegt fjármagn í innistæðutryggingakerfinu til að vernda allar innistæðueigendur í Icesave.

2. Evrópudómstóllinn ætti í krafti valdheimilda sinna að skera úr um hvernig túlka eigi tilskipun Evrópusambandsins um innlánatryggingakerfi nr. 94/19/EB. Þá ætti hann að kveða á um atriði sem mæla fyrir um bótaskyldu eða firrir íslenska ríkið bótaábyrgð í tilviki kerfisbundins brests eins og varð við íslenska bankahrunið. Löggjöf Evrópusambandsins mælir ekki fyrir um tilvik sem þessi. Er því umdeilanlegt hvort almenn skilyrði um ábyrgð ríkja samkvæmt EB/EES-rétti eiga við. Dómur Evrópudómstólsins í máli Paul Paulson frá 2004 er mikilvægur í þessu sambandi og einkum röksemdir sem mörg stjórnvöld lögðu fram meðan á málarekstri stóð sem og athugasemdir Aðallögsögumanns Evrópudómstólsins. Stofnunum sambandsins og fræðimönnum var fullkunnugt um að í tilviki kerfisbundins bankahruns væri rétt beiting reglnanna ekki tryggð. Þannig stafaði óhjákvæmileg hætta af beitingu þeirra yfir landamæri.

3. Sú leið hefur verið farin á Íslandi að veita eigendum rétt til aðgangs að innlendum innistæðum án nokkurra takmarkana. Það leiðir hinsvegar af reglunni um bann við mismunun að Ísland getur ekki mismunað innstæðueigendum. Reglan um bann við mismunun er ófrávíkjanleg meginregla ESB. Ef til málareksturs kæmi gæti brot á þessari reglu leitt til þess að íslenska ríkið gæti orðið bótaskylt umfram hið ákveðna lágmark sem nefnt er í tilskipuninni og nemur 20.887 evrum. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar.

4. Af því sem að framan er rakið er ljóst að hægt er að rökstyðja þann valkost frá lögfræðilegu, efnahagslegu og stjórnmálalegu sjónarhorni að Íslandi sé veitt lán til að standa undir greiðslum á þessum ábyrgðum meðan alþjóðlegir dómstólar leysa úr því álitaefni hvaða greiðslur íslenska ríkinu beri að greiða. Eftir stendur að íslenska ríkið þarf að taka afstöðu til þess hvort leggja skuli lausn málsins í löng og flókin málaferli fyrir dómstólum  eða sættast á þá málamiðlun að greiða innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Þetta er mjög erfitt val.

5. Hvað sem öðru líður má ekki takmarka umræðu um lagalegan ágreining við ákvæði í tilskipuninni sjálfri. Með þeirri aðferð er litið fram hjá því að inntak reglunnar ræðst af túlkun og taka þarf tillits til lagaumhverfis ESB og EES sem og því raunverulega umhverfi sem reglurnar gilda í. Í þessu samhengi er rétt að spyrja hvort gríðarlegar skuldbindingar vegna lánananna sem íslenska ríkið þarf að taka til að standa undir þessum fjárhæðum muni íþyngja efnahagslífinu næstu fimmtán árin og grafa undan stöðugleika þjóðarbúsins. Er sanngjarnt í ljósi þeirra grundvallarreglna sem Evrópusambandið starfar eftir að leggja þá bagga á Ísland sem er aðili EES samningsins og þátttakandi í samstarfi ríkja í Evrópu?  

6. Ljóst er að deilan sviptir hulunni af gráu svæði í bandalagsrétti. Hins vegar fellur það undir valdsvið Evrópubandalagsins að skera úr um og ráða fram úr ágreiningi sem á rætur að rekja til bandalagsréttar. Stofnanir Evrópusambandsins geta ekki látið eins og ráða þurfi fram úr ágreiningsefninu á þríhliða grundvelli og að það falli fyrir utan valdsvið bandalagsins. ESB/EES réttur hefur skapað þetta tiltekna vandamál (skortur á samræmingu varðandi atriði sem mæla fyrir um bótaskyldu eða firrir íslenska ríkið bótaábyrgð í tilviki kerfisbundins brests) og ESB/EES stofnanirnar geta ekki skotið sér undan því að leysa úr vandamálinu. Með því eru þær að bregðast hlutverki sínu og væri þá hinn innri markaður Evrópusambandsins í heild orðinn að stórri rökvillu fyrir einstaklinga, lögaðila og ríki.

7. Samningarnir sem nú hafa verið kynntir við Bretland og Holland eru alþjóðlegir viðskiptasamningar sem eru mjög í hag lánveitenda og endurspegla vantraust gagnvart Íslandi (löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvaldi). Frá sjónarhóli ESB/EES réttar eru þessir samningar mjög umdeilanlegir.

8. Þar sem ESB veitir fjárhagsaðstoð til ríkja sem eiga í erfiðleikum (bæði aðildarríkja og ríkja utan sambandsins) á höfundur þessarrar skýrslu erfitt með að skilja hvers vegna Ísland á ekki í samningaviðræðum við ESB um lausn málsins. Alþingi ætti að óska eftir lögfræðilegum og stjórnmálalegum skýringum frá ríkisstjórninni.

9. ESB hefur veitt þriðju ríkjunum alþjóðlega fjárhagsaðstoð þegar um er að ræða verulegan halla á greiðslujöfnuði. Þá hefur ESB ennfremur stofnað sjóð sem nefnist Guarantee Fund for External Actions sem tekur að sér að axla ábyrgð er ríki lenda í vanskilum eftir að hafa fengið lán frá ESB og sjá sér ekki fært að verða að fullu við skuldbindingum sínum. Ísland ætti að óska eftir áþekkri meðferð frá ESB.

10. Ákvæði í samningnum sem kynntur hefur verið eru mjög gagnrýniverð. Þau staðfesta valdsvið dómstóla Bretlands til að fjalla um deilur varðandi samninginn og til að framfylgja ákvæðum samningsins ef um vanrækslu verður að ræða. Í honum er fallið frá friðhelgi á grundvelli fullveldis varðandi íslenskar eignir. Þessi ákvæði samræmast ekki þeim stöðlum sem tíðkast í Evrópurétti (t.d. lán þau sem ESB hefur boðið Lettlandi og Ungverjalandi). Ef Íslandi reynist ókleyft að standa undir skuldum samkvæmt samningum ættu að vera fyrir hendi áform um aðstoð og um nýjar samningaviðræður eða frest. Allur ágreiningur varðandi  framkvæmd samningsins ætti að vera borinn undir Evrópudómstólinn skv. ESB/EES rétti. Afsal friðhelgis á grundvelli fullveldis varðandi eignir er ekki til staðar í öðrum ESB samningum.

11. Höfundur leggur til þá pólitísku áætlun að Alþingi hafi samband við stofnanir ESB og EES, sérstaklega hið nýkjörna Evrópuþing sem og hina sameiginlegu EES-þingmannanefnd. Í því skyni ætti sendinefnd að ferðast til Strassborgar og Brussel. Grundvallarspurningin um réttlæti í lausn Icesave deilunnar ætti að vera rædd á viðeigandi evrópskum vettvangi.

12. Þá er ljóst að Ísland hefði sem umsóknarríki um aðild að ESB sterkari stöðu til að sækja um fjárhagsaðstoð og lán frá Evrópusambandinu. Viðræður við ESB um fjárhagsaðstoð yrðu eðli málsins samkvæmt talsvert auðveldari ef íslensk stjórnvöld sýndu vilja til að ganga til samstarfs við sambandið hver svo sem úrslitin yrðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.
mbl.is Icesave-ábyrgð úr ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Mjög athyglisverð og góð greinagerð. Mikilvægt að fólk taki ekki uppá að snú út úr þessu á hvorn veginn sem er, heldur taki að tipla tám á jörðu og komi sér útúr einangrunarhyggjunni. Þetta er ekki svart-hvítt mál heldur þykk grá þoka sem við verðum að leiðast útúr.

Helgi Jóhann Hauksson, 29.6.2009 kl. 15:03

2 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Vitræn samantekt, er það sem ég vil kalla þetta.

Það hefur ekki mikið eða margt vitrænt birst um þetta mál og þá sérstaklega lítið vitrænt sést frá ríkisstjórninni.

Að semja með eðlilegum hætti um þetta mál, án hótana frá Hollendingum, Bretum og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum er eina ásættanlega leiðin í stöðunni.

Baldvin Björgvinsson, 29.6.2009 kl. 17:08

3 Smámynd: Júlíus Björnsson

Hlið á málinu sem byggir á meginlands vitsmun Evrópu og staðfestir alla réttláta um að maðkur er í mjöli núverandi málsmeðferðar: Bretland versus Ísland sér í lagi.

Enginn Evrópuþjóð lætur bjóða sér slíkt gerræði og enginn Evrópuþjóð ætta að líðast bjóða annarri upp á slíkt.

Júlíus Björnsson, 30.6.2009 kl. 00:01

4 Smámynd: Sævar Finnbogason

Takk fyrir góða greiningu.

Eins og þú segir er þetta ekki aðeins lögfræðilegt úrlausnarefni heldur er þetta einnig siðferðilegs eðlis og ljóst að þessi samningar eru gerðir í andrúmslofti algers skorts á trausti í garð Íslenskra stjórnvalda.

Það er rétt sem þú bendir á að það kunna að vera réttarfarslegir möguleikar til þess að komast jafnvel undan þessum ábyrgðum vegna kerfishruns.

Hinsvegar finnst mér standa uppur eftir að lesa þetta að hvort og hvernig við nýtum okkur þessa veikleika/möguleika mun ráða mestu um það hvernig okkur tekst að ávinna okkur traust, okkar helstu bandamanna á nýjan leik.

Það er mitt mat að Þegar öllu er á botnin hvolft er ljóst að traust og ímynd tekur langan tíma að byggja upp og ef við glötum því erum við verr sett til miklu lengri tíma en við værum þótt á bilinu 150 til 300 milljarðar af þessu féllu á okkur,

Þakka þér fyrir að byrta þessa vönduðu samantekt hér 

Sævar Finnbogason, 30.6.2009 kl. 13:07

5 Smámynd: Valan

It is refreshing to see your learned and competent analysis, which not only appeals to legal common sense but also resonates strongly with the teachings impressed upon me as a student of EU law in Britain.

The UK and Holland, as Member States, cannot be allowed to cherry pick which EU/EEA interstate legal complaints and controversies are resolved by the ECJ and which get the type of special single-sided forced bargaining that Iceland is being subjected to at the moment. If the effect is, as it is here, to remove a country from the international forum to have it defend in a Member State (UK) court, thereby creating some sort of alternate judicial avenue for powerful Member States, this inevitably and understandibly raises some major concerns regarding misuse and corruption, both presently and in the future, as well as of the integrity of the EU/EEA Court system as a whole.

I believe that leaving the legal uncertainty raised by ICESAVE unresolved, and forcing Iceland to accept contract terms under duress, is an apalling case of self-interest politics by these two Member States and Iceland should indeed fight to have it brought up in the broader community context as you suggest.

Valan, 1.7.2009 kl. 01:16

6 Smámynd: Baldvin Jónsson

Takk Elvira, frábær greining á stöðunni. Það eru augljóslega engin einföld svör til, þau hefðu þá verið komin fram að sjálfsögðu.

Eftir stendur samt að málið má ekki leysa með því að gangast undir kúgun stóru strákanna í ESB. Það verður að láta reyna á þetta mál í víðara samhengi. Við verðum að gera ESB stofnunum líka grein fyrir því að mál sem þetta gæti hæglega orðið prófmál fyrir önnur lönd í Evrópu og þar með svipt þau þeim almennu réttindum sem þau telja sig þar búa yfir.

Tek einnig undir hvert orð Völu hér að ofan. Þetta mál verður að taka úr þröngu samhengi sakbitni og sektarkenndar gagnvart Bretum og Hollendingum. Skömmin er vissulega okkar, en nú er það okkar að verja að hún verði ekki enn meiri.

Baldvin Jónsson, 5.7.2009 kl. 12:11

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég hef nú um nokkurt skeið verið þeirra skoðunar að Steingrímur og hinir VG liðarnir á þingi hafi verið á kúrsinum sem þú tilgreinir í lið 12. og treysti í sjálfu sér bara á að ESB aðild falli í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hún vissulega gerir ef farið væri í hana á næstu misserum. Gallin við þetta er hinsvegar sá að þetta er bara ekki hægt að segja upphátt án þess að allt verði vitlaust.

Guðmundur Jónsson, 5.7.2009 kl. 13:26

8 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þetta féll einhverra hluta vegna framan af fyrra innleggi

"Skýr og góð greining, takk fyrir þetta Elvira."

Guðmundur Jónsson, 5.7.2009 kl. 13:40

9 Smámynd: Maria Elvira Méndez Pinedo

Sæl öll,

 Takk kærlega fyrir fallegt orð og stuðningin, þetta er erfiðasta mál í nútíma Íslands. Vonandi Alþingi hugsar málið vel og hlustar á okkur. Margar spurningar um réttlætis sem ég er ennþá með.

B.kv. Elvira

Maria Elvira Méndez Pinedo, 5.7.2009 kl. 14:28

10 identicon

Íslenska ríkið er fyrir langa löngu búið að semja um að samþyggja þessa samnínga, gégn því að fá að komast inn í ESB og ábirgðin af innistæðu tryggingonum mun sjálfkrafa falla inn í ESB bankann og ég held að þetta sé búið og gért fyrir lokuðum tjöldum. Örugglega með hótunum um að ef þetta hefði ekki verið gért þá hefði AGS (IMF) vaðið yfir okkur og tekið yfir.

Guðni þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 5.7.2009 kl. 16:12

11 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Mér finnst þessi umræða hafa verið málefnaleg og á höfundur og aðrir þátttakendur þakkir skyldar fyrir það. Ég hef engu hér við að bæta. Kv., KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 7.7.2009 kl. 07:53

12 identicon

Mjög fróðlegt, Elvíra.

Knýjum fram þjóðaratkvæðagreiðslu, hver svo sem afstaða okkar er að öðru leyti: www.kjosa.is 

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband